Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 378/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

Mál nr. 378/2023

Mánudaginn 16. október 2023

 

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 31. júlí 2023 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 13. júlí 2023, þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi, dags. 14. ágúst 2023, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 18. ágúst 2023. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 23. ágúst 2023, og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fædd X. Hún er einstæð tveggja barna móðir.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 22. júní 2023 eru 7.665.632 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge).

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun með tölvupósti til umboðsmanns skuldara þann 31. maí 2023. Með bréfi, dags. 22. júní 2023, var kæranda tilkynnt að við vinnslu á umsókn hennar hefðu komið í ljós atriði sem leitt gætu til synjunar umsóknar um greiðsluaðlögun. Með bréfinu var kæranda veitt færi á að leggja fram skýringar og gögn áður en ákvörðun um afgreiðslu umsóknar yrði tekin. Kærandi brást við bréfi umboðsmanns með bréfi þann 5. júlí 2023. Umboðsmaður skuldara óskaði frekari skýringa með tölvupósti, dags. 6. júlí 2023. Með ákvörðun umboðsmanns, dags. 13. júlí 2023, var umsókn kæranda synjað með vísan til b- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi vilji að mál hennar verði endurskoðað. Fram kemur að kærandi sé einstæð tveggja barna móðir sem hafi komið aftur til Íslands fyrir X árum og ekkert átt nema börn sín. Kærandi kveðst vera í miklum fjárhagserfiðleikum og þarfnist hjálpar í þeim efnum. Þá tekur kærandi fram að allir þeir fjármunir sem lagðir hafi verið inn á hennar [reikning] hafi verið ætlaðir til að aðstoða hana og börn hennar.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að kæranda hafi verið sent ábyrgðarbréf, dags. 22. júní 2023, þar sem gerð hafi verið grein fyrir mikilvægi þess að skýra þar tilgreind álitaefni og leggja fram gögn. Afrit af bréfinu hafi jafnframt verið sent kæranda í tölvupósti samdægurs. Með bréfi embættisins hafi kæranda verið gefið færi á að leggja fram skýringar og gögn vegna hluta þeirra innborgana sem höfðu borist inn á bankareikning hennar til að varpa ljósi á fjárhag hennar. Einnig hafi kæranda verið gefið færi á að sýna fram á að ákvæði b- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge. ættu ekki við í hennar tilviki, þ.e. að hún hefði ekki stofnað til skulda á þeim tíma sem hún var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og að hún hefði ekki á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni var framast unnt að gera.

Þann 5. júlí 2023 hafi skýringar borist frá kæranda á hluta þeirra innborgana sem embættið óskaði skýringa á. Engar skýringar eða gögn hafi hins vegar borist frá kæranda vegna annarra þeirra atriða sem rakin voru í bréfi embættisins, þ.e. vegna b- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge., þrátt fyrir áminningu embættisins þar um í tölvupósti til umsækjanda þann 6. júlí 2023. Telur embættið sig hafa veitt kæranda færi á að andmæla fyrirsjáanlegri synjun umsóknar um greiðsluaðlögun, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með framangreindu ábyrgðarbréfi og tölvupósti.

Í ljósi þess að frekari svör hafa ekki borist frá kæranda hafi embættið tekið ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga og hafi það verið mat þess að synja bæri umsókninni á grundvelli b- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. það sem rakið hafi verið í bréfi embættisins, dags. 22. júní 2023.

Í bréfi umboðsmanns skuldara, dags. 22. júní 2023 er vikið að efni 2. mgr. 6. gr. lge. Fram kemur að samkvæmt ákvæðinu sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til nánar tilgreindra aðstæðna sem taldar séu upp í stafliðum a-g í ákvæðinu.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um greiðsluaðlögun komi fram að þær ástæður sem fjallað sé um í 2. mgr. 6. gr. laganna, eigi það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju eða öllu leyti rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segir að heimilt sé að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma sem skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Tekjur og greiðslugeta ársins 2022

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafa tekjur kæranda og áætlaður framfærslukostnaður verið eftirfarandi á tímabilinu frá janúar til desember 2022:

Greiðslugeta 2022

jan.22

feb.22

mar.22

apr.22

maí.22

jún.22

júl.22

ágú.22

sep.22

okt.22

nóv.22

des.22

Staðgreiðsluskrá

429585

418473

422387

419754

456173

422050

418608

442690

418608

418607

480928

475546

Barnalífeyrir

77080

77080

77080

77080

77080

79392

79392

79392

79392

79392

79392

79392

Húsnæðisbætur

50261

50261

50261

50261

50261

50261

55287

55287

55287

55287

55287

55287

Barnabætur

 

171466

 

 

171465

181265

 

 

 

181265

 

 

Samtals tekjur

556926

717280

549728

547095

754980

732968

553287

577369

553287

734551

615607

610225

Framfærslukostnaður

550229

550229

550229

550229

550229

550229

550229

550229

550229

550229

550229

550229

Áætluð greiðslugeta

6697

167051

-501

-3134

204751

182739

3058

27140

3058

184322

65378

59996

 

Áætlaður framfærslukostnaður kæranda hafi numið samtals 550.229 kr. á mánuði. Framfærslukostnaðurinn byggir á framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara fyrir einstakling með tvö börn frá júní 2023. Við framfærslukostnaðinn hafi verið bætt kostnaði vegna húsaleigu að fjárhæð 180.633 kr., samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Við framfærslukostnaðinn hafi einnig verið bætt kostnaði vegna trygginga, annarra en bifreiðatrygginga að fjárhæð 5.208 kr. og kostnaði vegna skóla/dagvistunar barna að fjárhæð 15.390 kr. Auk þess hafi útvarpsgjaldi og gjaldi í framkvæmdasjóð aldraðra verið bætt við framfærslukostnaðinn ásamt mánaðarlegu svigrúmi að fjárhæð 13.161 kr.

Samkvæmt fyrirliggjandi forsendum um tekjur kæranda og áætlaðan framfærslukostnað hafi greiðslugeta kæranda verið áætluð jákvæð um 75.046 kr. að meðaltali á mánuði á árinu 2022.

Skuldbindingar árið 2022

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hvíldu á kæranda eftirfarandi skuldir við lok árs 2021:

Útgáfudagur

Kröfuhafi

Höfuðstóll

Lengd

Afborgun

Vanskil

11.10.2019

Landsbankinn

2500000

84

32004

1.3.2023

24.11.2021

Greiðslumiðlun/[…]

159990

19

7852

2.2.2023


 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stofnaði kærandi til eftirfarandi skulda á tímabilinu 21. janúar 2022 til 6. desember 2022:

Útgáfudagur

Kröfuhafi

Höfuðstóll

Lengd

Afborgun

Vanskil

21.1.2022

Greiðslumiðlun/[…]

169900

36

6478

2.2.2023

23.3.2022

Greiðslumiðlun/[…]

61106

10

6915

2.2.2023

11.5.2022

Aur

180000

15

13950

1.2.2023

24.6.2022

Íslandsbanki

1000000

60

24869

1.2.2023

26.6.2022

Farsímagreiðslur/[…]

310500

24

12201

1.2.2023

26.6.2022

Aur

200000

15

15605

1.3.2023

27.7.2022

Aur

120000

12

11543

1.2.2023

24.8.2022

Farsímagreiðslur/[…]

26611

6

4503

1.2.2023

24.8.2022

Farsímagreiðslur/[…]

28704

6

4857

1.2.2023

18.9.2022

Farsímagreiðslur/[…]

39309

6

6552

1.2.2023

13.10.2022

Farsímagreiðslur/[…]

48302

6

8094

1.2.2023

17.10.2022

Greiðslumiðlun/[…]

159000

18

10787

2.2.2023

25.11.2022

Greiðslumiðlun/[…]

16810

6

3113

2.2.2023

27.11.2022

Greiðslumiðlun/[…]

14397

4

3882

2.2.2023

6.12.2022

Greiðslumiðlun/[…]

27250

4

7287

2.2.2023

 

Samtals hafi mánaðarleg greiðslubyrði allra framangreindra lána numið 180.493 kr. eða 105.447 kr. umfram áætlaða greiðslugetu kæranda á árinu 2022. Samkvæmt því hafði kærandi ekki greiðslugetu til þess að takast á hendur skuldbindingar sem stofnað hafi verið til eftir 24. júní 2022.

Umsókn kæranda um aðstoð vegna fjárhagsvanda hafi verið móttekin þann 19. janúar 2023. Á tímabilinu 19. janúar til 31. janúar 2023 hafi kærandi einnig stofnað til eftirfarandi skulda:

Útgáfudagur

Kröfuhafi

Höfuðstóll

Lengd

Afborgun

Vanskil

19.1.2023

Greiðslumiðlun/[…]

15890

4

4196

2.2.2023

20.1.2023

Greiðslumiðlun/[…]

158980

36

6362

2.4.2023

30.1.2023

Greiðslumiðlun/[…]

32694

1

30.1.2023

31.1.2023

Greiðslumiðlun/[…]

13070

1

31.1.2023

 

Með vísan til framangreinds hafi það verið mat embættisins að ákvæði b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. stæði að öllu óbreyttu í vegi fyrir samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun.

Akvœði f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita heimild til greiðsluaðlögunar beri m.a. að líta til þess hvort skuldari hafi ekki staðið í skilum með fjárhagsskuldbindingar sínar eftir því sem honum framast var unnt.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um greiðsluaðlögun komi fram að þær ástæður sem fjallað er um í 2. mgr. 6. gr. lge. eigi það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum séu elstu vanskil á skuldum kæranda frá 1. desember 2022.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi tekjur kæranda, framfærslukostnaður og greiðslugeta verið eftirfarandi það sem af er árinu 2023:

Greiðslugeta 2023

jan.23

feb.23

mar.23

apr.23

maí.23

jún.23

B

377232

415685

646081

518483

 

 

Tryggingastofnun

93729

93729

93729

93729

93729

93729

C

 

 

 

36709

477837

204955

Atvinnuleysistryggingasjóður

 

 

 

 

311746

341223

D

 

 

 

 

 

73846

Húsnæðisbætur

55287

62916

62916

62916

37065

37065

Barnabætur

 

182660

 

 

182660

189044

Samtals tekjur

526248

754990

802726

711837

1103037

939862

Framfærslukostnaður

651964

651964

651964

651964

651964

651954

Áætluð greiðslugeta

-125716

103026

150762

60873

451073

287898

 

Ofangreindar tekjur kæranda byggi á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Skattsins, greiðsluáætlun Tryggingastofnunar og álagningarseðli 2023, sem og yfirliti yfir innborganir á bankareikninga kæranda. Framfærslukostnaður kæranda byggir á framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara frá júní 2023 fyrir einstakling með tvö börn. Við framfærslukostnaðinn sé bætt kostnaði vegna húsaleigu að fjárhæð 282.368 kr., kostnaði vegna trygginga, annarra en bifreiðatrygginga að fjárhæð 5.208 kr. og kostnaði vegna skóla/dagvistunar barna að fjárhæð 15.390 kr. Auk þess sé útvarpsgjaldi og gjaldi í framkvæmdasjóð aldraðra bætt við framfærslukostnaðinn ásamt mánaðarlegu svigrúmi að fjárhæð 13.161 kr.

Samkvæmt framangreindu hafi verið áætlað að greiðslugeta kæranda hafi verið jákvæð um samtals 927.916 kr. á tímabilinu janúar til júní 2023, þar af hafi áætluð greiðslugeta kæranda mánuðina maí og júní 2023 verið samtals 738.971 kr. Sé horft til tímabilsins alls hafi greiðslugeta kæranda verið áætluð 154.653 kr. að meðaltali á mánuði.

Samkvæmt gögnum máls hafi kærandi greitt samtals 234.464 kr. í afborganir af skuldum sínum hjá Landsbankanum, Greiðslumiðlun, Aur, Íslandsbanka og Farsímagreiðslum mánuðina janúar og febrúar, auk einnar afborgunar af láni Greiðslumiðlunar í mars mánuði. Þegar tekið hafi verið tillit til þeirra afborgana standi 693.452 kr. eftir af áætlaðri greiðslugetu kæranda mánuðina janúar til júní 2023, eða sem nam 115.575 kr. að meðaltali á mánuði.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að með hinni kærðu ákvörðun, dags. 13. júlí 2023, hafi embættið synjað umsókn kæranda um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun með samningi við kröfuhafa með vísan til b- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi lagði inn umsókn um aðstoð vegna fjárhagsvanda þann 19. janúar 2023. Með tölvupósti dags. 31. maí 2023 óskaði kærandi eftir því að umsókn hennar yrði breytt í umsókn um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. lög um greiðsluaðlögun einstaklinga. Við meðferð málsins komu í ljós atvik sem þóttu geta leitt til synjunar um heimild til greiðsluaðlögunar. Því hafi kæranda verið sent ábyrgðarbréf, dags. 22. júní 2023, þar sem henni var boðið að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós. Viðbrögð kæranda bárust með bréfi þann 5. júlí 2023. Með ákvörðun dags. 13. júlí 2023 var kæranda synjað um greiðsluaðlögun með vísan til b- og f- liða 2. mgr. 6. gr. lge. Um málsatvik og forsendur vísast að öðru leyti til hinnar kærðu ákvörðunar og framangreinds bréfs frá 22. júní 2023.

Umboðsmanni skuldara ber við mat á umsókn að líta til þeirra aðstæðna sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að heimilt sé að synja umsókn um greiðsluaðlögun með vísan til þeirra aðstæðna sem þar séu tilgreindar. Í andmælabréfi embættisins, dags. 22. júní 2023, hafi verið farið yfir atvik málsins og hvernig þau heimfærast undir umrædd ákvæði 6. gr. lge. Með bréfinu hafi kæranda annars vegar verið gefið færi á að leggja fram skýringar og gögn vegna hluta þeirra innborgana sem höfðu borist inn á bankareikning hennar til að varpa ljósi á fjárhag hennar. Kæranda hafi hins vegar verið gefið færi á að sýna fram á að ákvæði b- og f- liða 2. mgr. 6. gr. lge. ættu ekki við í hennar tilviki, þ.e. að hún hafi ekki stofnað til skulda á þeim tíma sem hún hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og að hún hafi ekki á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni var framast unnt að gera.

Þann 23. júní 2023 hafði kærandi samband við embættið símleiðis og veitti ákveðnar skýringar vegna innborgana sem höfðu borist inn á bankareikning hennar. Embættið hafi óskað eftir því að kærandi myndi senda embættinu skriflegar skýringar vegna þeirra atriða sem rakin voru í bréfi embættisins og hafi í símtalinu einnig verið farið yfir önnur synjunarákvæði sem þar voru rakin, þ.e. b- og f- lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Þann 5. júlí 2023 bárust embættinu skriflegar skýringar frá kæranda vegna hluta þeirra innborgana sem embættið óskaði skýringa á. Engar skýringar eða gögn hafi hins vegar borist frá kæranda vegna annarra þeirra atriða sem rakin voru í bréfi embættisins, þ.e. vegna b- og f- liða 2. mgr. 6. gr. lge. þrátt fyrir áminningu embættisins þar um í tölvupósti til kæranda þann 6. júlí 2023.

Eftir að hafa skoðað upplýsingar frá kæranda og gögn málsins komst umboðsmaður skuldara að þeirri niðurstöðu að óhæfilegt þætti að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. það sem rakið var í framangreindu bréfi embættisins.

Hin kærða ákvörðun hafi byggt á heildstæðu mati á aðstæðum kæranda, miðað við þau gögn sem lágu fyrir. Ekkert hafi komið fram á síðari stigum sem breytt gæti þeim forsendum sem synjun á heimild kæranda til greiðsluaðlögunar sé byggð á.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á hún verði staðfest

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b- og f-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar, hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Þá er samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar, hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum framast var unnt.

Samkvæmt gögnum málsins hvíldu skuldbindingar að fjárhæð 2.659.990 krónum á kæranda við lok árs 2021. Greiðslubyrði þeirra nam 39.856 krónum á mánuði. Á tímabilinu 21. janúar til 6. desember 2022 stofnaði kærandi til skuldbindinga að fjárhæð 2.401.889 krónur. Greiðslubyrði þeirra nam 140.636 krónum á mánuði. Samanlagt nam greiðslubyrði kæranda af þessum skuldbindingum því 180.492 krónum á mánuði.

Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara á greiðslugetu kæranda árið 2022 gat kærandi greitt 75.046 krónur af þessum skuldbindingum að meðaltali á mánuði. Skuldbindingar þær sem kærandi gekkst undir á árinu 2022 voru því 105.447 krónum umfram mánaðarlega greiðslugetu.

 

Að mati úrskurðarnefndarinnar gáfu hvorki tekjur kæranda né eignastaða tilefni til að ætla að hún gæti staðið undir greiðslu þeirra skulda sem hún stofnaði til á tímabilinu 21. janúar 2022 til 6. desember 2022. Í ljósi þess telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma er hún var greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar, sé óhæfilegt að veita hana. Við mat á slíku skuli sérstaklega taka tillit til þess hvort atriði sem rakin eru í liðum a til g eigi við. Eins og þegar hefur verið rakið taldi umboðsmaður skuldara að f-liður 2. mgr. 6. gr. lge. ætti við um háttsemi kæranda. Ákvæðið varðar þá hegðun skuldara að standa ekki við skuldbindingar sínar eftir því sem honum er unnt með ámælisverðum hætti.

Skýra verður f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. í samhengi við önnur ákvæði 6. gr. lge. svo og þann tilgang laganna að jafnvægi sé komið á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Lögin gera ráð fyrir því að framganga skuldara áður en greiðsluaðlögunarumleitanir hófust verði sérstaklega metin.

Af gögnum málsins verður ráðið að greiðslugeta kæranda á tímabilinu janúar 2023 til júní 2023 hafi verið jákvæð sem nemur 154.653 krónur að meðaltali á mánuði, eða alls 927.916 krónur á tímabilinu. Samkvæmt gögnum málsins greiddi kærandi á þessu tímabili alls 234.464 krónur í afborganir af skuldbindingum sínum en flestar skuldbindingar hennar hafa verið í vanskilum frá janúar-febrúar 2023. Kærandi hefur engar skýringar veitt á þessari háttsemi þrátt fyrir ítrekuð tilmæli þar um. Að því virtu er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærandi hafi látið hjá líða að greiða af skuldbindingum sínum frá þeim tíma þrátt fyrir greiðslugetu.

Að mati úrskurðarnefndarinnar þykir þannig sýnt að háttsemi kæranda hafi verið óhæfileg enda hafi hún látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni var framast unnt á framangreindu tímabili.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur úrskurðarnefndin að kæranda hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og f- liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.


 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A, um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum